Monday, December 19, 2016

Dagurinn sem ég snéri veðurfræðingnum

Já, eða við Eiður.

Oft hefur það flogið gegnum huga minn að skrifa hugleiðingu um stöðu veðurfræðinga og birta á Austurfrétt - þá ekki stöðu þeirra varðandi kaup&-kjarasamninga, heldur hvernig þeir koma sér oftar en ekki haganlega fyrir framan við austurhluta landsins meðan þeir kveða upp dóm næstu daga, sem vissulega væri annað slagið gaman að fá að sjá.

Það var svo í gærkvöldi sem ég sá hnyttna stöðufærslu sem vinur minn Eiður Ragnarsson birti á Facebooksíðu sinni með þessari mynd: „Gengur á með jakkafötum og hvítri skyrtu austanlands næstu daga.“



Þá ákvað ég að nú væri tíminn kominn, nú myndi ég gera eitthvað úr þessu. Ég vissi líka um 80 manna Facebookhóp sem kallaði sig Hættið að standa fyrir Austurlandi kæru veðurfræðingar. Í morgun sá ég að búið var að deila stöðufærslu Eiðs um 100 sinnum.

Ég hringdi því í hann og spurði hvort við ættum ekki að slá á létta strengi og koma með eina skemmtilega frétt svona í svartasta skammdeginu. Hann var til, sem endranær.

Við á Austurfrétt erum orðin þaulvön því að fréttirnar okkur rati áfram í aðra netmiðla landsins en mig óraði ekki fyrir því fjöri sem dagurinn færði mér í kjölfar þessa aðventugríns.

Hér má lesa upphaflegu fréttina á Austurfrétt, viðtalið við Eið, sem ég setti í loftið í morgun, en þar sagði meðal annars;

„Þetta er kannski óþarfa tuð og vel er hægt að skoða veðrið annarsstaðar, en svona fyrst þessi dagskrárliður er í sjónvarpinu þá finnst mér það lágmarks tillitssemi að hægt sé að gjóa augunum á helstu atriði eins og hitatölur og vind í sínum fjórðungi,“ segir Eiður og bætir því við að þessi tilhneiging veðurfréttamanna á RÚV hafi verið slæm síðustu misseri en hafi líklega náð hámarki í gærkvöldi. „Maðurinn stóð alveg fyrir landshlutanum í gær, gamla austfjarðakjördæmið sást aldrei allan veðurfréttatímann.“

Fljótlega tóku netmiðlarnir fréttina upp á sína arma. Vísir var með fyrirsögnina Austfirðingar argir; „Ég vil örvhentan veðurfræðing“, Mbl.is var þá setningu sem Eiður var með sjálfur „Geng­ur á með jakka­föt­um og hvítri skyrtu“ og útvarpsþátturinn vinsæli Reykavík síðdegis fjallaði um málið eins og heyra má hér.

Svo fór að færast fjör í leikinn þegar BBC fréttastofan fékk veður af öllu saman (flott orðagrín hjá mér) og hringdi í Eið alla leið á Djúpavog, en þá frétt má lesa hér.

Eiður sagðist ekki binda miklar vonir við að tuðið myndi nokkru skila frekar en endranær, en staðfestar fréttir herma að austfirðingar hafi sent fleiri en eina og fleiri en tvær formlegar kvartanir vegna þessa á fréttastofuna gegnum tíðina, án árangurs.

Hápunktur dagsins var svo að horfa á veðurfréttirnar í kvöld og taka stöðuna á veðurfræðingi dagsins. Yrði hann á sínum stað eða myndi hann flippa og vinda sér suður á bóginn? Þegar stórt er spurt er best að setjast niður og bíða svars.

Jú, ég get svoleiðis guðsvariðða! Hann fór suður nú eða vestur kannski frekar. Allavega tók sig upp frá austurhlutanum.


Rúsínan í pylsuendanum finnst mér svo orðsendingin frá RÚV nú í kvöld sem hljómar svona; 

 „Kæru Austfirðingar, svona bæta menn fyrir mistökin. Við biðjum ykkur að sýna okkur þolinmæði meðan unnið er að varanlegri lausn, en til stendur að veðurkortið verði ávallt sýnilegt um allt land allan tímann. Veðurfræðingar okkar gera sitt allra besta til að vera ekki fyrir í millitíðinni svo enginn þurfi að gera veður yfir þeim á meðan!“

P.s. þið hafið svo bara samband ef ykkur vantar fólk til athafna. Við snérum veðurfréttamanninum á RÚV - bara með einni lítilli krúttfrétt. Það er allt hægt. Allt.

No comments:

Post a Comment