Saturday, June 25, 2016

Stelpurokk!



Get ég í alvörunni fengið að hitta Adele, bara yfir einum kaffi? Ég hendist bara til London, það er ekkert mál.

Ég þarf að ræða við hana. Það er með ólíkindum hvað hún hittir oft naglann á höfuðið í sínum textasmíðum og mér finnst hún alltaf vera að semja fyrir mig. Sverða. Hálf krípí.

Tónlist er svo magnað fyrirbæri, bæði á slæmu og góðu dögunum. Niðri í dal eða upp á hæð. Adele á svör við öllu. Skýringar á öllu. Á réttum tíma. Alltaf.

Þetta lag. Þessi texti. Þessi listamaður. Hér er þemalag sumarsins komið. Takk elsku vinkona!

Adele - Send My Love 

Næst á dagskrá er að kjósa konu sem forseta. Vona að ég komist á kjörstað með stóra mínum sem var aðeins nokkurra daga þegar sitjandi forseti, Ólafur Ragnar, var kosinn árið 1996.

Þá gekk ég um gólf með hann allan daginn, Almar Blæ, ekki Ólaf, en í dag bíð ég eftir að hann nái að skjótast frá í vinnunni sinni og kjósa með mér. Að sjálfsögðu höfum við sömu sýn í því máli eins og flestu öðru.

Áfram Halla!






Tuesday, June 14, 2016

KonMari


Úff. Þar sem mér er lífsins ómögulegt að reyna að fylgjast með og hvað þá glöggva mig á þessum forsetakosningum hef ég ákveðið að snúa mér að einhverju öðru. Af hverju er mér það ómögulegt?

Jú. Sko. Í fyrsta lagi finnst mér þær hafa staðið yfir í tvö ár, svo langur og fjörugur hefur aðdragandinn verið. Í öðru lagi þarf ég að beita mig valdi til þess að horfa á sjónvarp yfirleitt, horfi varla á minn eigin þátt hvað þá annað.

Nei krakkar, ég hef ákveðið að henda mér á kaf í „KonMari-aðferðina“ í stað þess að reyna að horfa á þessa umræðuþætti.

Nú er von þið spyrjið, KonMari, um hvað er manneskjan eiginlega að tala? Jú, það skal ég aldeilis segja ykkur.

KonMari er aðferð, þróuð af japönsku konunni Marie Kondo, sem skrifaði bókina The Life-Changing Magic of Tidying: A simple, effective way to banish clutter forever, þar sem hún lýsir aðferð sinni til þess að fara í gegnum allar sínar veraldlegu eigur og losa sig við drasl og óreiðu að eilífu. Þetta eru vissulega stór orð, en eftir að hafa lesið bókina og kynnt mér málið er ég sannfærð um að hún hefur hárrétt fyrir sér.

Þetta er reyndar ekki ný fluga sem flaug á ennið á mér heldur læt ég alltaf svona þegar fer að vora, þá hellist yfir mig óstjórnleg löngun í að taka til. Þá meina ég ekki að moppa og setja í þvottavél, nei, heldur fara í gegnum alla skápa, flokka og losa mig við. Já, ég veit, hljómar undarlega, en hér talar líka kona sem hefur meiri áhuga á þvotti en góðu hófi gegnir.

Marie Kondo, nýja besta japanska vinkona mín, segir að ferlið taki allt að sex mánuðum ef vel á að vera, en persónulega ætla ég aðeins að taka sumarið í þetta.

Aðferðin gengur út á það að fara í gegnum allt dótið sitt og losa sig við hvern hlut sem ekki vekur gleði hjá manni. Taka á einn flokk fyrir í einu, til dæmis eldhúsáhöld, safna þeim öllum saman á einn stað og meta hvert og eitt. Ef maður er ekki handviss um leið og hluturinn er tekinn upp, mælir hún með því að við losum okkur við hann. Þannig er farið í gegnum alla hluti á heimilinu. Flokkarnir sem hún nefnir eru föt, bækur, smámunir og tilfinningalegir hlutir. Smámunir innihalda allt frá raftækjum til handklæða til bréfaklemma. Tilfinningalegir hlutir geta verið t.d. ljósmyndir, fyrstu barnaskórnir eða gamlar dagbækur.

Það er þó ekki svo ég sé að fara að henda þessum hlutum, heldur losa mig við þá, gefa til hjálparstofnana eða selja einhverjum öðrum en það sem er óþarfi fyrir mér er kannski nauðsyn fyrir næsta mann.

Ég sé þetta sem andlega tiltekt, ekki síður en veraldlega, það léttir svo mikið á sálinni að vera ekki að burðast með allskonar óþarfadrasl í kringum sig – svona af því bara.

Dæmi um flokkana mína: Leikföng barna, raftæki og snúrur, digitalgögn:myndir, digitalgögn:skjöl, skrautmunir á veggjum og í hillum, matur í ísskáp og frysti, fatnaður, útiföt og skór (æjæj), verkfæri, lyf og vítamín. Þetta og svo allt hitt.

Er nú búin að vera að hlaupa í þetta í viku og er búin með helling, alveg tólf flokka! Flyt vonandi fljótlega milli húsa og stefni þá á að fara aðeins með helming þeirra hluta sem í kringum mig eru.


Ehhh, já. Ég átti alveg krydd sem runnu út 2009. 



Einn þriðji af eldhúsdótinu mínu fær framhaldslíf annarsstaðar. 



Hver notar uppskriftabækur lengur? Ekki ég, þetta er allt á netinu. Ég losaði mig við þær flestar, nema auvitað gersemið sem ég fékk eftir ömmu Jóhönnu, bestu uppskriftir veraldar í þessari dásamlegu stílabók. 



Hvað þarf ein stelpa að eiga mörg skrúfjárn?




Meðan aðrir fóru út á lífið um síðustu helgi sat ég og flokkaði skrúfur og nagla. Nú er Gyða Sól KonMöruð í drasl!



Garn-kassinn fékk aldeilis að finna fyrir því. 



Átt mun auðveldara með að fara í gegnum bækurnar mínar en ég hélt og mun fara með fulla kassa á bókasafnið hér á Reyðó fljótlega. 




Svo varð ég bara að KonMara garðinn, svona fyrst ég var í þessum ham. Ekki á ég sláttuvél svo mikið er víst og því var ég búin að humma þetta fram af mér, allt of lengi. Druslaðist loksins í þá aðgerð í gær og Guð minn almáttugur! 

Ok. fór næstum að grenja. Ég á stærstu lóð í bænum og það tók mig þrjá tíma að slá og raka. Þrjá tíma! Að vísu var óræktin orðin slík að ég þurfti að tví-slá og tví-raka og því jafnaðist þetta á við meðal heyskap á 400 kinda sauðfjárbúi. 

Alla jafna er alveg ljómandi gott að vera "síngúl" - bæði átakalaust og frelsandi. En á svona dögum, beint ofan í bílakaup með tilheyrandi umræðu um bremsluklossa og blöndunga, þá langar mig í kærasta - fjadinn hafi það! Nú eða þá ráðsmann. Nei, alls ekki ráðsmann, vinnumann. Samdi meira að segja auglýsinguna í huganum þegar ég var að berja helvítis sláttuvélina í gang í hundraðasta skipti.  


Vinnumaður óskast - nánast í sveit

Auglýsi eftir duglegum, iðnum, vinnu- og útsjónarsömum karlmanni. Þarf að geta gengið í öll verk, allt frá heyskap til húsverka. Verður að vera vel gefinn, glaðlyndur, skemmtilegur, röggsamur og "sjálfdrifinn" (vá, nýtt og algerlega frábært orð) og laus við símafíkn. Ekki myndi skemma fyrir að hann gæti spilað á gítar, væri hávaxinn og dökkhærður. Skegg er skilyrði.  

Er þetta til of mikils ætlast? Svona menn liggja alveg á lausu er það ekki?




Næst á dagskrá er fatnaður heimilisins, Geymi skóna um stund. Og börnin mín. 



Sunday, June 5, 2016

2



Þessi dæmalaust dásamlega mannvera á afmæli í dag, en Emil er tveggja ára hvorki meira né minna. Það er erfitt að hafa hann ekki hjá sér á þessum stóra degi til þess að vekja hann með gjöfum og söng og stjana svo við hann í allan dag, en við höldum honum ærlega veislu um næstu helgi í staðinn.

Emil er ótrúlega skemmtilegur og ljúfur strákur, ég hélt á tímabili að hann yrði allt öðurvísi en systkini sín, en í dag er hann orðinn ljúfur sem lamb - einstaklega blíður, góður og kurteis. 

Emil á einstakt samband við Gogga sinn, lítinn bangsa úr IKEA sem hann tók ástfóstri við afar snemma og þeir hafa gengið í gegnum súrt og sætt saman. 

Ég hef aldrei séð eins sterkt samband á milli barns og bangsa, en hann sleppir Gogga aldrei úr augsýn, þeir fara saman á leikskólann, út að leika í rigningu, í sund og bað svo að eitthvað sé nefnt. 

Ég hyggst skrifa bók um þá félaga einhvern daginn, helst sem allra fyrst, þeir eiga það svo sannarlega skilið.  

Hér koma nokkrar myndir frá árunum tveim og þessum litla mola sem gefur svo mikið. 



Hann var settur á þjóðhátíðadaginn 17. júní 2014. 



Vika 38. 



Flýtti sér í heiminn og mætti til leiks 5. júní. 




Fyrstu bleiuskipti. 



Mömmuknús á sjúkrahúsinu í Neskaupstað. 



Kominn heim í hópinn sinn. 



Fyrsta baðið heima. 






Fyrstu jólin. 



Ég tók myndir af honum fimmta hvers mánaðar fyrsta árið. 



Með mömmu í Atlavík sumarið 2015. 



Á fótboltamóti á Húsavík, sumarið 2015. 




Félagarnir úti í snjónum í vetur. 



Lífið mitt - fjölskyldan mín mínus Almar Blæ. 



Goggi kann að meta kodda og mjólk. 



Allt sem ég á! Fermingardagur Bríetar, 24. mars 2016.




Ljósmynd: Bríet.



Ljósmynd: Bríet. 



Emil&Goggi. Vor 2016.



Heltjan mín - Emil performar á fyrstu vorhátíð sinni í Lyngholti, þar sem börnin skemmtu foreldrum, ömmum, öfum og öðrum aðstandendum fyrir fullum garði. 



Til hamingju ljósadýrðin mín!


Friday, June 3, 2016

Gullabúið



Loksins, loksins. Eftir áralanga leit fann ég loksins "take away" bolla fyrir kaffið mitt, en ég hef aldrei rekist á neinn sem mig langar almennilega í.

Hann fann ég í uppáhaldsbúðinni minni á öllu landinu og þó víðar væri leitað - Gullabúinu á Seyðisfirði, en það eru snillingarnir Halldóra Malin og Maggý sem eiga hana og hafa þar skapað sannkallaða ævinrýraveröld.

Ekkert annað nafn hæfir búðinni betur, en mér líður alltaf eins og í gullabúunum mínum forðum daga, svo heilluð er ég í hvert skipti sem ég kem þangað.

Á morgun fagna þær stöllur þriggja ára afmæli Gullabúsins og verða af því tilefni með 20% afslátt af öllum vörum.

Mikið verður um almennar dýrðir á Seyðisfirði alla helgina, en Verzlanafjelag Seyðisfjarðar verður stofnað með miklu húllumhæi, götugrilli og dj-partýi undir berum himni, je minn hvað ég hlakka til!

Allavega, ég mæli með því að þið kíkið við í Gullabúinu því það þarf ekki að leita lengra eftir gjafavöru nú eða þá fylgihlutum fyrir heimilið.












Thursday, June 2, 2016

20


Frumburðurinn minn og ljúfmetið, Almar Blær, á afmæli í dag. Ekkert bara eitthvað afmæli, heldur stórafmæli, barnið er tvítugt.

Ég skil þetta ekki. Þegar ég var tvítug fannst mér ég allavega vera fertug, svo fullorðin var ég, enda sjálf orðin móðir. Og þegar ég var tvítug, fannst mér fertugir, eins og ég er í dag, vera á síðasta söludegi og stefna hraðbyri á Grund. 

Í dag er barnið mitt tvítugt. Hvernig sem ég velti þessu upp, en þá er ég að meina hverri einustu steinvölu, þá skil ég þetta ekki. Það hræðir mig hve tíminn líður hratt. 

Í ár höfum við semsagt verið saman hálfa ævi mína, sem er sturluð staðreynd enda segir hann reglulega að honum finnist við ein og sama sálin.

Við vorum saman í sex ár áður en hann eignaðist systkini og gerðum allt saman. Hann druslaðist með mér út um allt og var fastagestur í A-bekknum í Kennó um þriggja ára skeið. Hann fæddist einhvernveginn 100 ára gamall, auk þess sem við ræddum mikið saman og lásum. 

Oft hefur hann veitt mér skýra sýn og opinn faðm, sérstaklega í vetur á umbrotatímum. Sagði mér reglulega þegar ég lá í fósturstellingu og alveg að bugast yfir öllu saman - "Mamma mín, þú getur þetta. Þú ert eina sem ég þekki sem getur allt, sterkasta, klárasta og duglegasta manneskja sem ég þekki. Þú ert fyrirmyndin mín og krakkanna, sú allra besta sem við getum fengið." Já, ég grét. Mikið. 

Í dag er bjartur og draumfagur dagur, rétt eins og hann sjálfur sem ber af sér mikinn þokka og einstaka útgeislun. 

Á morgun ætlum við að borða saman í hádeginu og fagna áfanganum. Kannski rifja upp skaðann sem hann telur sig hafa orðið fyrir í tónlistarlegu uppeldi móður sinnar. Kannski líka uppáhalds persónuna okkar, Fröken Guðrúnu, sem hann skapaði fjögurra ára gamall og lék heilt sumar. Svaraði ekki öðru kalli en því að vera hótelstýran Guðrún sem var verulega ströng og stúrin í skapi og hafði flest allt á hornum sér. Kannski líka þegar hann kleip ömmu sína svo fast í nefið að hún gekk um með það fjólublátt í þrjár vikur á eftir. Það hefur þó líklega verið skassið hún Guðrún.

Hér koma nokkrar gamlar, en þó góðar af okkur sálufélögunum.









Til hamingju lov!