Monday, June 15, 2015

Smellnar brúðkaupsmyndahugmyndir óskast



Er að fara í brúðkaup á laugardaginn. Já eða partý öllu heldur. Til Helenu vinkonu, já og auðvitað Kjartans. Get - ekki - beðið!

Já. Það er nú saga að segja frá þessu. Giftu sig á þrettándanum. Í laumi. Algerum. Ég var þó sú eina, fyrir utan börnin þeirra og foreldra, sem hefði getað verið viðstödd - en klúðraði því! 

Helena hringdi í mig daginn áður og spurði mjög látlaust hvort ég væri til í að taka nokkrar myndir í afmæli tvíburana "á morgun" - en þau eiga afmæli á þrettándanum. Ég svaraði því til að ég gæti það, en myndavélin mín væri með dólg og tæki illa myndir innandyra í skammdeginu. Ekkert mál, svarar sú ógifta. Bara einna. Einmitt!

Daginn eftir fæ ég skilaboð. Með mynd af hringum á fingri. Dæs. Fór að grenja af svekkju. 

En. Kæra fólk. Af því mér hefur gefist svo vel að kalla eftir hugmyndum á veraldarvefnum, ætla ég að halda því hér áfram. 

Ætla að vera hirðljósmyndari á laugardaginn. Svona í sárabót fyrir þrettánda-fíaskóið. Ætla að fylgja þeim frá því sólin rís og fram á nótt. 

Ætla meðal annars að smella af gestum þegar þeir mæta á svæðið. Okkur langar að hafa eitthvað smá heildarlúkk yfir því. Eruð þið með hugmyndir úr þeim brúðkaupum sem þið hafið farið í?

Já og bara allskonar ljósmyndahugmyndir fyrir tilefnið? 

Svo auðvitað treysti ég á vini mína á Pinterest.