Sunday, August 31, 2014

Hring eftir hring

Á sunnudegi sem þessum, þar sem fyrsta haustlægðn er í brjálæðiskasti, er fátt betra en að setjast niður við kertakjós með sterkt kaffi og mastera nýja IKEA-bæklinginn.

Ég, ásamt fjölmörgum öðrum, á í einhverskonar ástarsambandi við IKEA. Mitt er reyndar töluvert alvarlegt. Ég get skoðað bæklinginn tímunum saman og látið mig dreyma. Líka bara til þess að virða fyrir mér og spá í skemmtilegri hönnuninni.

Ef ég hefði verið búin að átta mig á því hver ég var þegar ég hellti mér út í nám á sínum tíma, þá væri ég hönnuður af einhverju tagi í dag. Innanhússarkitekt eða vöruhönnuður til dæmis. Hefði reynt allt mitt til þess að troða mér í vinnu hjá sænska risanum.

Skil reyndar ekki af hverju ég valdi ekki einhverja skapandi námsgrein á háskólastigi því áhugi minn á hönnun, myndlist og ritun hófst afar snemma. Man ósjaldan eftir mér þar sem ég sat og teiknaði hús og byggingar, nú eða bjó til þrívíddarlíkan úr pappír. Bækurnar um Kalla og Kötu voru líka í uppáhaldi, en myndirinar í þeim voru svo skemmtilegar - mikið sýnt inn í húsunum hjá þeim. Ég skoðaði þær í spað og spáði í stílnum þeirra og endurraðaði í huganum. Líka Einar vinur minn Áskell, sem bjó með einstæðum föður sínum. Þær myndir eru svo skemmtilgega "tvisted" - ótrúlega grófar og "naive" á móti nákvæmum ljósmyndum.

Nú er ég hinsvegar komin langt út fyrir efnið. IKEA 2015. Hann er ótrúlega skemmtilegur og mikið afturhvarf til fortíðar. Það fer allt í hring, alltaf. Finnst ég vera að skoða bækling síðan ég fór sjálf að búa 1993.



Byrjum á þessari ómeðhöndluðu furu. Þegar ég var að byrja að búa voru IVAR-hillurnar það sem tröllreið öllu í IKEA. Ég var með þetta út um alla íbúð, meðal annars í stofunni þar sem ég átti "horn" í stæðunni og allt! Mér fannst júnítið það flottasta undir sólinni.


Finnst jafnvel aðeins og stutt síðan þetta lúkk var allsráðandi



Það er eitthvað við þessar sem kasta mér aftur til 1994. Flutti suður með notað furusófasett. Skundaði i Rúmfatalagerinn og fjárfesti í efni í áklæði á settið. Fyrir valinu varð einmitt efni sem engu líkara en einhver hefði ælt á það eftir að hafa drukkið aðeins og mikið af ýmisskonar matarlit. Gardínurnar voru grænköflóttar. Klassi 


Myndirnar hér að neðan fara svo með mig enn aftar - eitthvað ótrúlega '80


Speglafísar. Ó lord. Þær voru í tugatali í herberginu mínu í denn. 


Einmitt. Hef beðið lengi milli vonar og ótta að röra-tímabilið hefji innrás sína á ný. Við speglaflísarnar var allt "röra" innihjá mér. Rörarúm, rörahillur og röra náttborð. Allt svart og hvítt. Líka svart/hvítt bútasaumsteppi og svart/hvítar "ælu-gardínur". Flottast ever. 


Frekar '80 blöndunartæki






Ég átta mig ekki á því hvort ég er tilbúin fyrir þetta allt saman. 

Friday, August 29, 2014

Beðið eftir svari

Emil bíður spenntur eftir svari frá vinum sínum í Velferðarráðuneytinu. 


Í morgun fór að gjósa.

Lika í fyrradag - en þá skrifaði ég opið bréf til Velferðaráðuneytisins vegna fæðingarorlofsmála hér á síðuna mína. Mig grunaði að færslan fengi töluverðan lestur en mig óraði ekki fyrir þeim viðbrögðum sem urðu.

Fyrir utan að rata á síður Vísis, Kvennablaðsins og Bleikt var færslunni deilt svo hundruðum eða þúsundum skipti á Facebook. Heimasíðan mín tók við rúmlega 15.000 heimsóknum þennan sólarhring.

Augljóst er að málefnið er eitthvað sem mörgun er hugleikið. Lang flestir voru hjartanlega sammála því að pottur væri brotinn í þessum efnum og lagfæringa þörf.

Enn hefur ekki borist svar frá ráðuneytinu, en við Emil bíðum að sjálfsögðu æsispennt og deilum því með ykkur um leið og það dúkkar upp.

Ég á hins vegar ekki lýsingarorð yfir það hvað ég er ánægð með ykkur! Auðvitað vonum við að málunum verði komið i betri farveg sem fyrst, en það gerist í það minnsta ekki án opinnar umræðu.

Takk krakkar, áfram við!


Wednesday, August 27, 2014

Opið bréf til Velferðaráðuneytis; Er verið að refsa fólki fyrir að eiga börn?

Þetta er Emil Gíslason. Hann hefur áhyggjur af stöðu fæðingarorlofsins. 

Hæstvirtir ráðherrar velferðarmála

Mig langar óskaplega til þess að fá að ræða við ykkur tiltekið mál – fæðingarorlof- og fæðingarorlofsgreiðslur, en ég eignaðist mitt fjórða barn í júní. Ég hef lagt mig alla fram, en það er alveg sama hve oft ég reikna dæmið, það bara vill ekki ganga upp hjá mér. Þess ber þó að geta að stærðfræði hefur aldrei verið mín sterka hlið, en ég hef heldur ekki enn hitt þann einstakling sem er í fæðingarorlofi og með peningamálin í lagi.

Ég veit að ég þarf ekki að kynna ykkur fyrirkomulagið – að foreldrar fái sameiginlega níu mánuði til þess að koma nýjum einstaklingi á legg, þar sem móðirin á þrjá mánuði, faðirinn þrjá og þau saman þrjá sem deila má að vild. Greiðslurnar nema aldrei meira en 80% af fyrri launum og svo er ákveðið þak á hámarksgreiðslum ef um hálaunamanneskju er að ræða.

Gott og vel. Þetta eru breyturnar í dæminu. Ef við byrjum bara á því að hugsa um tímarammann. Níu mánuðir. Hér á Reyðarfirði er ekki starfandi dagmóðir, en við erum hins vegar svo heppin að börnin okkar komast inn i leikskólann um eins árs aldurinn. Þarna myndast strax þriggja mánaða gat, fyrir utan að mér skilst að fullt verð hjá dagmóður sé það hátt að tekjurnar þurfi að vera ansi góðar til þess að það hreinlega borgi sig að fara að vinna.

Til þess að þurfa ekki að taka barnið með sér í vinnuna er því í flestum tilfellum nauðsynlegt að deila greiðslunum niður á fleiri mánuði en þessa níu. Hvað gerist þá? Jú, prósentutala launa lækkar enn frekar.
Rekstur heimilis á Íslandi í dag er ekkert grín, burt séð frá fæðingarorlofi. Húsnæðis- og leiguverð er svimandi, svo virðist sem allt sé gullhúðað í matarkörfunni, auk þess sem útgjöldin sem tínast til virðast botnlaus. Nú vil ég þó taka það fram að ég og mín fjölskylda „lifum ekki hátt“ alla jafna. Við eigum ekki húsnæði heldur leigjum allt of litla íbúð, en þröngt mega jú sáttir sitja. Við förum ekki til útlanda (þar sem við höfum ekki efni á því) og erum ekki að kaupa okkur dýr húsgögn eða föt. Matarkarfan inniheldur hvorki lautalundir né kavíar, aðeins það nauðsynlegasta.

Það er verulega þreytandi að ná ekki endum saman ár eftir ár – en í fæðingarorlofinu tekur steininn alveg úr. Gersamlega. Mig langar svo óskaplega að vita hvernig þetta er hugsað og hverjum datt í hug að það væri frábær hugmynd að fjölskylda tæki á sig verulega tekjuskerðingu með stækkandi fjölskyldu og þar af leiðandi auknum útgjöldum? Þetta er mér algerlega hulin ráðgáta.

Það er einn punktur í þessu sem mér finnst líka mjög alvarlegur. Hluti kvenna upplifir depurð eftir barnsfæðingu, sem auðveldlega getur þróast í fæðingaþunglyndi. Eins dásamlegt og nýja hlutverkið er reynist fjölmörgum það erfitt, en hormónarnir okkar fara víst á flipp við þetta allt saman. Fyrst við erum á persónulegu nótununum get ég alveg sagt ykkur að ég finn fyrir þessum tilfinningum núna, eins rífandi stolt og hamingjusöm ég er með barnið mitt. Ég get líka viðurkennt að það gerir ekkert fyrir mig eða mína andlegu líðan að vera auk þess að drulla á mig af peningaáhyggjum alla daga.

Facebook og aðrir samfélagsmiðlar hafa bæði opnað og minnkað heiminn. Daglega fylgjumst við með ættingjum og vinum út um allan heim. Ég horfi öfundaraugum á vini mína í nágrannalöndunum, þar sem fólki er borgað fyrir að vera heima með börnin sín, allt upp í þrjú ár. Það er hvetjandi umhverfi til barneigna og gjörningurinn gerlegur. Ég er kannski ekki að fara fram á þriggja ára orlof á fullum launum, en kerfið hér á landi er til skammar. Er verið að refsa fólki fyrir að eiga börn? Nei, ég bara spyr.

Þið kannski útskýrið þetta fyrir mér þegar við hittumst. Komið kannski með eitthvað með kaffinu, ég hef því miður ekki efni á því.


Sjáumst. 

P.s. Ekki er það nú heldur svo gott að manni leyfist nokkur sjálfsbjargarviðleytni sem gæti falið í sér að að taka að sér einhverja verktakavinnu og þá hugsanlega lifa af. Nei, þá verður allt vitlaust í kerfinu.

P.p.s. Ef einhver veit um smá svarta vinnu handa mér sem hægt er að sinna með ungabarni, þá er sá hinn sami vinsamlegast beðinn um að gefa sig fram. Svona áður en ég þarf að fara að selja úr mér líffæri. Nú eða sjálfa mig. 

Wednesday, August 6, 2014

Bak við tjöldin í mánaðamyndatöku Emils

Barnið er fætt sko. Orðið tveggja mánaða og heitir Emil.

Við ákváðum að sjálfsögðu að vera með í "mánaðamyndatökuæðinu" sem geysar á veraldarvefnum, þ.e. að mynda barnið alltaf á "mánaða-afmæli" þess. Þetta er sniðug leið til þess að sjá vaxtar- og þroskaþróun þess myndrænt.

Emil hefur mismikla þolinmæði fyrir myndagleði móður sinnar sem er í meira lagi að flestra mati. Tveggja mánaða myndatakan fór fram í gær og varð þessi fyrir valinu.



Allt í lagi með það, þarna situr snáðinn rosa flottur og virðist meira að segja hafa lært að vinka og allt! Að baki þessu er sveitt ljósmyndamóðir sem og stóra systir með trúðslæti.

Þessi bangsi. Hann er nú kapituli út af fyrir sig. Ég fékk hann þegar ég var lítil og mamma færði mér hann á dögunum. Annað hvort þykir honum svona voðalega leiðinlegt á Reyðarfirði eða hann er hreinlega þunglyndur eftir að hafa dúsað upp á háalofti á mínu æskuheimili í tugi ára. Hann kann engan vegin við fyrirsætustörfin, það er alveg á hreinu.


Þegar við mæðgur vorum búnar að ná réttu myndinni af afmælisbarninu voru þónokkrar á vélinni, misgóðar - en skemmtilegar þó. 




Fyrirsætubransinn krakkar, hann er ekkert grín!