Tuesday, March 11, 2014

Beikonsúpan hennar ömmu Jónu

Veikindi hafa herjað á heimasætuna síðustu daga og til þess að takmarka leiðindin sem felast i því að hanga heima hjá heima- en þó útivinnandi móður sinni fékk hún að velja kvöldmatinn í gær. Það var einfalt fyrir hana, en beikonsúpa ömmu Jónu varð fyrir valinu. Yngri kynslóðin hefur sérstakt dálæti á súpunni, sem ég skil afar vel, en hún er alveg ótrúlega góð. Ég hafði aldrei gert hana sjálf og hafði því samband við móður mína suður á fjörðum.

Held að það sé þannig með flestar mæður og ömmur að einstaklega erfitt er að fá frá þeim nákvæmar uppskriftir, það er allt í "dassi" - dass af þessu, slatti af hinu og jafnvel eitthvað sirka líka. Vopnuð slíkum mælieiningum hentum við Bríet í súpuna í gær - og svei mér þá, hún var bara alveg eins og hjá "ömmu".

Hér er þetta sirka, en þið bara verðið að prófa - hún er sérstaklega góð á köldum vetrarkvöldum og jafnvel betri daginn eftir, eins og sannar súpur eru gjarnan.

  • Beikon (ég keypti eitt stórt bréf, en það þarf alveg tvö venjuleg)
  • Sætar kartöflur (ég var með eina frekar stóra)
  • Venjulegar kartöflur (ég var með þrjár frekar stórar)
  • Púrrulaukur 
  • Chilly (hálft)
  • Gular baunir plús safinn af þeim (ég var með eina stóra dós)
  • Niðursoðnir tómatar (ég var með eina dós)
  • Tómatpurré (ég var með stærri dósina)
  • Rjómi (ég var með einn pela)
  • Nautateningur (setti held ég alveg þrjá)
  • Pipar
  • Vatn (nokkur glös)

Ég fékk einnig nokkuð efnislitlar upplýsingar um framkvæmdina, augljóst er að móðir mín er farin að treysta mér vel fyrir húsmóðurhlutverkinu, líklega þá formlega komin í hóp "dassara". En, allavega. Hér er mín aðferð; 



  • Ég skar kartöflurnar í frekar litla teninga, púrrulaukinn í smátt sem og chillýið og setti í stóran pott og lét krauma í smá matarolíu. 
  • Skar beikonið einnig smátt og bætti út í. 
  • Þegar þetta var aðeins farið að brúnast skellti ég innihaldi tómatdósarinnar út í sem og tómatpúrrunni. Þar á eftir gulu baununum og safanum úr dósinni. Að því loknu treysti ég mér til þess að meta vatnsmagnið, byrjið rólega og bætið frekar í. Þarna setti ég líka teningana, bætti svo í þá síðar í ferlinu. 
  • Þar sem við mæðgur höfðum daginn fyrir okkur í eldamennskunni leyfðum við súpunni að malla á lágum hita í langan tíma. Ég setti rjómann út í eftir að súpan hafði verið dágóða stund á hellunni. Hún varð svo alltaf bragðmeiri og betri eftir því sem hún sauð lengur, en það er ágætt að hafa það í huga varðandi kryddun gera það smá saman.

Með dásemdinni bárum við fram hvítlauksbrauð og slógum í gegn!

Tuesday, March 4, 2014

Magnað Magnesium

Er nú á 25 viku meðgöngu. Barnið á stærð við gulrófu, samkvæmt spádómnum. 

                              

Engin samlíking er meira við hæfi í dag þar sem sprengidagur er að líða undir lok. Sporðrenndi sjálf þónokkrum bitum af viðmiðinu hjá tengdamóður minni í kvöld sem var svo elskuleg að bjóða okkur í saltkjöt og baunir, túkall. Það er með því albesta sem ég fæ að borða yfir árið og kokkur kvöldsins klikkaði ekki að vanda. 

Hvergi er minnst á það á grænmetisfræðslu-síðunni babycanter.com að börn eigi það til að dvelja vikum og mánuðum saman undir rifbeinunum á manni. Ef ég vissi ekki betur væri ég þess fullviss að ég væri með svæsna millirifjagigt, almáttugur. Er svo endalaust uppgefin á þessu svæði að ég íhuga að láta fjarlægja úr mér nokkur bein, helst bara eftir helgi. 

25 vikna bumba í slökun

Magnesíum hefur verið mikið í umræðunni upp á síðkastið og hreinlega nánast kynnt sem bót við hverju sem er. Ég hef átt við verulegan svefnvanda að etja síðustu vikur (já eða mánuði) en sá vandi dúkkar alltaf upp á mínum meðgöngum. Ég hef átt einstaklega erfitt með að ná mér í svefn á kvöldin og enda yfirleitt með því að veltast í rúminu langa stund áður en ég gefst upp og fer fram. Það er hins vegar ekki góð aðferðafræði þegar vinnudagurinn kallar snemma morguns. Læknastéttin var farin að hóta mér slakandi mixtúru því ekki er góð skemmtun að fara svefnlaus og uppgefinn í fæðingu og nýburapartý. 

Ég ákvað hins vegar að prófa að taka inn Magnesíum áður en til "meðferðar" kæmi, þar sem ég var búin að heyra af Slökunar-magnesíum-duftinu í Lyfju. Ég fjárfesti í dollu með sítrónubragði og jeremías hvað það er gott, ég þarf að beita mig hörðu að vera ekki að drekka þetta allan daginn, en aðeins má taka eina til tvær teskeiðar á dag út í vatn. Ég er ekki frá því að þetta virki á mig, svei mér þá. Annað hvort það eða ég er að taka þetta á sálfræðinni, vitandi að ég er að taka inn eitthvað sem "á að gera gagn". Hvort sem er, þá kvarta ég ekki og ætla að gefa svefnlyf upp á bátinn á næstunni. Ég mæli með að þið prófið ef þið eigið erfitt með að ná ykkur niður á kvöldin. 


Nammmmmm...



Monday, March 3, 2014

Húslegir skipulags-hórmónar

Meðganga er mikið rannsakað fyrirbæri, enda stórmerkilegt. Ekki nóg með að hvað ferlið allt saman er stórfenglegt kraftaverk, þá er hormónaflæðið sér kapítuli út af fyrir sig. Fyrir utan það að verða enn meiri væluskjóða en vanalega þá koma yfir mig allskonar dillur á meðgöngum. Mig langar til dæmis í Undanrennu alla daga og allar nætur - drekk líklega tvo lítra á dag!

En hvað er að frétta af skipulagsæðinu? Það er eins og við manninn mælt, á hverri einustu meðgöngu rennur á mig þetta ferlega skæða skipulagsæði, líklega kallað hreiðurgerð. Fyrr má nú öllu ofgera, segi ég nú bara. Hvað held ég? Að barnið muni aldrei bíða þess bætur ef einar of litlar buxur af krökkunum lufsist inn í skáp eða að pottaskápurinn sé ekki eins og í byrjun desember? Ég finn mig algerlega knúna til þess að; 

  • Fara yfir alla fataskápa og helst losa mig við eins mikið og ég mögulega get. 
  • Aðrar skúffur og skápar fá heldur alls ekki og engan veginn að vera í friði. Nei, nei, ég þarf svoleiðis endilega að fara yfir allt, hverja eina og einustu. Taka til, henda og ryksuga - tek þessu svo bókstaflega að engu líkara en um skipun að ofan sé að ræða. 
  • Geymslan. Já, þið heyrðuð rétt. Geymsludótið okkar er reyndar á hrakhólum vegna þess að við búum sjálf í dúkkuhúsi og því ekkert pláss. Vorum að færa það á milli húsa um helgina og "í leiðinni" fór ég yfir hvern einasta kassa, já svona rétt til þess að hafa allt á hreinu. Almáttugur!
  • ToDo listar. Drepið mig ekki, ég framleiði slíka lista. Þeir eru út um allt, allt skal skráð, skjalfest og gert. Helst í gær.  

Svo virðist að vissara sé að rynsuga og taka til í eldhússkúffum a.m.k. einu sinni i viku!


Að mínu mati er ekki við hæfi að hafa ekki 100% yfirsýn á geymslukassana


Móðir mín segir mig aldrei nokkurntíman hafa verið skrifandi. Þrátt fyrir það get framleiði ég handskrifaða ToDo lista. 

Fyrr má nú vera. Ég er nú frekar skipulögð manneskja að eðlisfari en það keyrir alltaf gersamlega um þverbak á meðgöngum. Spurning hvort ég bjóð mig ekki fram fyrir annað fólk, áður en ég hendi Gísla og krökkunum.