Friday, November 29, 2013

Aðventan er handan við hornið

Langaði að henda inn ritstjórapistli vikunnar, hann er bara svo jóló...




Aðventan er handan við hornið, skemmtilegasti tími ársins að mínu mati. Tímabil þar sem  haldið er í hefðirnar. Ég hef oft hugsað þetta eftir ég fór sjálf að búa. Ég held þó að mín kynslóð sé örlítið rólegri í tíðinni í tengslum við þrif og bakstur, en líklega hefur eitthvað annað komið á móti.

Í minningunni gekk allt á tveimur vikum fyrir jól. Þegill, Ajax, tuska og tékklisti. Glerskápur í stofu og allt innan úr honum þrifið, tékk. Veggir í stofu, tékk. Loft í gangi, tékk. Eldhúsinnrétting og allir gluggar í húsinu, tékk, tékk!

Í Heiðmörkinni var svo enginn maður með mönnum, eða kona með konum öllu heldur, nema að baka í það minnsta 11 sortir. Það voru mömmukökur, loftkökur, vanilluhringir, negulkökur, hálfmánar, súkkulaðibitakökur, smjörkökur og allt hitt. Smjörkökur já. Spesíur er víst samheiti. Aldrei skildi ég það fyrirbæri. Hvítar, ljótar kökur með smjörbragði. Til hvers í ósköpunum. Já, nei, nei. Það var eins og við manninn mælt – um leið og mamma hafði lokið við að baka þær var blásið í þokulúðra og allar vinkonurnar úr götunni voru mættar, á nóinu. Mættar til þess að smakka og blessa þessa dásemd sem þær litlaustu voru. Fengu sér kaffi úr glasi með. Herra minn trúr.

Ég hef reynt að tóna mig niður í herlegheitunum. Ég baka alveg og þríf sko. Þrennt hefur þó ekki breyst milli ára hjá mér og kýs ég að klikka ekki á þeim atriðum. Einhverra hluta vegna hef ég talið mér trú um að jólin komi alls ekki nema ég taki til og þrífi innan eldhússkápana og svo gluggarnir. Þá bara verð ég að þvo og pússa. Amen.

Líka þetta með mömmukökurnar. Ekki nóg með það að ég verði að baka þær til þess að detta í gírinn heldur er serimonían við þær alltaf eins. Ég leita að uppskriftinni. Í öllum mínum lausablaðsuppskriftum. Leita og leita. Skil ekkert í þessu. Enda á því að hringja í mömmu, fimmtánda árið í röð og láta hana lesa uppskriftina fyrir mig. Hún var til dæmis að því núna rétt áðan. Tékk.

Mömmukökur

125 g sykur
125 g smjörlíki (ég frábið mér að nota það nokkurntíman, vil bara íslenskt smjör)
250 síróp
1 egg
500 g hveiti
2 tsk natron
1 tsk engifer

Hitið saman að suðu, smjör, sykur og síróp. Hellið saman við rest þegar það hefur kólnað lítillega. Hnoðið og látið deigið bíða yfir nótt í ísskáp. Bakið og setjið kökurnar tvær og tvær saman með smjörkremi. Þá mega jólin koma fyrir mér.

P.s. ef ég fer að tala um þetta sama að ári, þá kannski minnið þig mig á uppskriftin sé nú skjalfest í Austurglugganum. 

Wednesday, November 27, 2013

Langar

Er andvaka. Ok. Veit að klukkan er bara rúmlega tólf, en ég er búin að reyna að sofna í klukkutíma og gefst nú formlega upp. Hausinn á mér er á 400.000 snúningum, er að hugsa og skipuleggja aðeins of margt í einu. Neðangreind færsla veldur mér ekki andvökum, þó mig langi í allt of margt þessa dagana. Eins og...

 
Háa ullarsokka frá Geysi. Get svo sem alveg prjónað mér sokka sjálf, en væri alveg til í eitt par frá þeim. Dóttir mín var vægast sagt pirruð við mig um daginn þegar ég var búin að ganga gjörsamlega í gegnum ullarsokkana sem amma Jóna prjónaði handa henni. Amman sá aumur á barninu og færði henni nýja sokka. Dóttirin horfði ströng á mig og sagði; "þú kemur ekki nálægt þessum!" Já, ég þarf sokka.




Alltaf þegar ég kem í heimsókn til Jóu mágkonu er ég utan þjónustusvæðis fyrsta hálftímann. Við að skoða Heilsurétti fjölskyldunnar, bláu bókina. Þreytist ekki að skoða hana og langar alveg voðalega mikið í hana, finnst allt í henni alveg stórsniðugt. Hef ekki séð þá gulu, en efast ekki.






Mig hefur í mörg ár langað að fara að safna kærleikskúlunum sem koma út einu sinni á ári, en það er Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra sem gefur kúluna út. Þetta er ellefta árið í röð og nú er ég að hugsa um að láta slag standa og byrja að safna. Að þessu sinni er hún eftir Ragnar Kjartanson og nefnist Hugvekja. 





Ég hef alltaf verið sjúk í Múmínálfana, hvort sem ég var barn eða fullorðin. Það er eitthvað svo dásamlegt við þá. Gísli gaf mér svo mína fyrstu múmínkönnu í afmælisgjöf í janúar og held ég mikið upp á hana. Langar að bæta í safnið og jólakannan er sérlega sæt. Já, sem og þær allar. 




Iittala. Er sjúk í það merki eins og hálf þjóðin. Hefur reyndar alltaf fundist vörurnar fallegar, man eftir þeim frá því ég var krakki, enda alger klassík. Langar ferlega í þessi glös hér. Mér til varnaðar þá á ég engin fín glös. Sverða. 




Æji já. Iittala. Langar ekki bara í glösin. Heldur alla kertastjakana og fullt af skálum. Lúsuxvandamál. 



Snjóboltinn frá Kosta Boda er það eina sem ég er búin að biðja mömmu að arfleiða mig af. Nja, ásamt mánaðarbollunum hennar. Þessi kúla var og er enn til á mínu æskuheimili og hún er alltaf jafn falleg. Hún fæst líka enn í dag, enda tímalaus snilld. 




Það sem mig er lengi búið að langa í Tivoliútvarp. Fáránlega gott hljóð í þeim miðað við stærð og falleg hönnun. Er ekki við hæfi að gefa sjálfum sér jólagjöf nú til dags?





Já. Nú er ég komin út á frekar súrrealískar brautir því óska úlpan mín kostar tæpan 100.000 kall. Ó mig auma. En, það sem mig langar!


Best að enda þessa færslu með stæl. Elsku 70D. Viltu verða mín?









Eða nei. Allar góðar færslur enda á skóm. Mig vantar skó. Alltaf. Þessum úr H&M er velkomið að búa hjá mér.