Monday, May 27, 2013

Mín eina veraldlega ósk

Mig langar ekki í bíl og ekki i hús. Sá veraldlegi "hlutur" sem mig langar helst að eignast í gervöllum heiminum er mynd eftir Stórval. Hef burðast með þessa þrá svo lengi sem ég man eftir mér. Ó hvað ég gæfi mikið fyrir eina slíka!





Veit ekkert fallegra. Vona að einn daginn verði einhver mynda hans mín!



Friday, May 24, 2013

Ráð óskast vegna flutninga!

Skítt með rauðrófurnar (sjá gærdagspistil) - við erum að fara að flytja. Enn einu sinni. Kommon, er nú búin að hanga í sömu íbúð í fimm mánuði!

Dettur ekki í hug að fara að segja almennt frá þeim flutningum, það er orðið svo daglegt brauð hjá okkur. Erum að flytjast um sirka tvær götur, úr fjölbýli í fjórbýli...

Það er tvennt við þetta sem veldur mér heilabrotum:

Annars vegar er það að íbúðin er heldur minni og ég hreinlega veit ekki hvernig ég á að grisja dótið mitt eða þá galdra fram geymslupláss sem er ekki til staðar, en við hjónaleysin ætlum að troða okkur í minnsta herbergið sem skráð er geymsla! Þannig að ég verð geymslulaus með öllu og það er bagalegt. Veit einhver um slíkt pláss hér á RF sem hægt er að leigja fyrir slikk?

Hins vegar er það eldhúsborðið mitt. Það er ógeðslegt. Ég hata það. Ókei? Um er að ræða dæmigert viðarborð, líklega úr Rúmfatalagernum - man hreinlega ekki hvar eða hvernig mér áskotnaðist það. Það sem mig langar að fá ykkur til þess að velta upp með mér, hvað ég get gert til að fegra borðið? Ekki er ég atvinnulaus konan að fara að fjárfesta, þá aðeins mesta lagi í málningu! Lá í rúminu og hugsaði þetta í gærkvöld. Datt í hug að;

  • Mála það - samt ekki einhvernvegin. Hefði þá aðeins dottið í hug að mála það hvítt, en stólarnir mínir eru hvítir. Svart gengur ekki, nenni ekki að horfa á ryk allan daginn ef svo ólíklega vildi til að sólin myndi skína eitthvað á þessum landshluta.
  • Flísaleggja það - kannski mölbrjóta einhverjar skemmtilegar flísar og skella á það. Held að það sé ekki svo góð hugmynd þó skemmtileg sé.
  • Glerplata - láta skera fyrir mig glerplötu sem ég gæti sett ofan á og fest einhvernegin á hornunum til þess að hún færi ekki á flakk. Datt í hug að þá gæti ég haft allskonar sýningar undir glerinu, það sem hentar hverju sinni. Ljósmyndir, blaðaúrklippur, póstkort, sögur og ég veit ekki hvað og hvað. Finnst þetta voða góð hugmynd hjá mér en hugsa að ég yrði þreytt á henni til lengdar.
  • Pússa og lakka - leiðinlegasta hugmyndin en líklega sú praktískasta og besta. Það eru allskonar blettir á plötunni og kannski næðist það fallegt með því að hjakkast á pússugræjunni og lakka svo glært yfir? Æji, ég veit það ekki. Það er í það minnsta verkefni fyrir Gísla, finnst það of leiðinlegt. Já, svo má kannski mála bara plötuna?
Elsku gefið mér ráð svo mér detti ekki í hug að gefa borðið vegna flutninga!

Góða, góða helgi



Thursday, May 23, 2013

Þarf ég að vera kjarneðlisfræðingur til að fá vinnu?

Í dag er ég pirruð. Veit ég á ekki að vera það, sólin skín, ég og mínir heilbrigðir og ný ríkisstjórn komin til valda. Allt að gerast. Ég er það samt því ég var áðan að fá fjórðu neituna um vinnu á skömmum tíma. Líklega eins og gengur og gerist hjá atvinnuleytendum...

Ég hef vandað mig að vera rosa jákvæð og hress. Þvæ og strauja Pollýönnukjólinn á hverju kvöldi til þess ég geti nú klæðst honum skammlaust næsta dag. Búin að sækja um allskonar vinnur, en viðurkenni þó að enn er ég að sækja um á þeim sviðum sem mig langar helst að vera á. Ég er ekki farin út í það að sækja um "hvað sem er" - en það styttist greinilega í það...

Það sem hefur komið mér helst á óvart í þessu ferli er hve ótrúlegur fjöldi umsókna berst um hvert og eitt starf. Í mínu tilfelli eru þær að hanga í kringum 40 og heyrði á dögunum af stöðu sem auglýst var hér í bæ þar sem 75 sóttu um. Ég hef reyndar blessunarlega ekki verið atvinnuleytandi áður þannig að ég þekki þetta ekki, er kannski bara það sem alltaf hefur verið upp á teningnum. Staðan er því sú að ég er ekki einu sinni að komast í viðtalshóp hvað þá annað...

Var vongóð með það síðasta en stóri dómur þess barst í tölvupósti í morgun. Um er að ræða stöðu verkefnastjóra fræðslumála hjá ákveðnu fyrirtæki. Sá mér nú leik á borði að sækja um - svo ég tali nú eins og Georg Bjarnfreðarson kollegi minn - þá er ég með tvær háskólagráður í fagniu. Segi nú ekki að ég hafi verið farin að kaupa mér skrifstofugögn, en ég var bjartsýn að fá í það minnsta að fylgja stórglæsilegri umsókn minni eftir, þó svo ég segi nú sjálf frá...

Nei takk, ekki var það nú svo gott. Búið er að ráða í stöðuna, en þeim 37 sem sóttu um var raðað í flokka eftir menntun og reynslu. Eðlilega. Komst ekki einu sinni í viðtal. Þarf ég að vera kjarneðlisfræðiengur til þess að fá vinnu? Eða með fjórfalt doktorspróf í "óskiljanlegumgreinum"? Segi nú bara eins og pabbi sem var heimsmeistari í að tvinna saman blótsyrðum: andskotans, helvítis, djöfulsins djöfull!

Jæja. Fagna því að sama skapi hvað við hljótum að vera með frábæran hóp fólks, vel menntaðan og frambærilegan í umhverfinu okkar. Í alvöru ég geri það, ég er nú kannski ekki alveg Birna Björns frá Bitrustöðum. Óska kynsystur minni innilega til hamingju og óska henni velfarnaðar í starfi og því að halda áfram að byggja upp það frábæra starf sem hefur átt sér stað í háskólamálunum hér austanlands...

Ég aftur á móti hef ákveðið að fara í mastersnám í haust. Það er eina sem blífur - að afla sér menntunar svo lengi sem lifir, ef tækifærin eru fyrir hendi. Það er einmitt einn heilaþvottafyrirlesturinn sem ég held reglulega fyrir börnin mín. Lærið, lærið, lærið. Lifið og njótið! Ætla að bæta við mig fjölskylduráðgjöf, tveggja ára fjarnám með vinnu frá HÍ sem lýkur með diplómu og svo skellir maður ofan á einni mastersritgerð...

Með vinnu. Tókuð þið eftir því? Ég verð þá kannski einmitt að halda áfram að leita að vinnu. Bara á morgun. Pollýönnukjóllinn er grútskítugur í dag og ég ætla ekki að þvo hann fyrr en í kvöld. Er ekki í stuði. Væri til í að vera teiknimyndapersóna í dag. Geta bara pakkað mér og mínum niður og farið hvert sem er. Bara aðeins. Langar burt úr snjókomu í maí. Langar burt frá atvinnuleyt. Langar til Afríku. Þar þarf ég ekki að vera í kjól, bara allsber í strápilsi, borða maiísgraut og bera vatn á höfðinu. Bara borða, biðja og elska...


Vá hvað ég er ógeðslega leiðinleg í dag. Afsakið - og það svona rétt eftir hlé. Ég lofa að vera skemmtileg á morgun. Jafnvel tala um rauðrófur sem ég elska þessa dagana. Það ER skemmtilegt, víst

Tuesday, May 21, 2013

Afsakið hlé!


Ég er ekki búin að liggja heima með alvarlega ritstíflu, bara svona svo að það sé á hreinu. Aftur á móti stíflaði ég nýju tölvuna mína svo heiftarlega að hún lenti á gjörgæslu. Gaf henni of mikið af myndum að borða. 

Hélt á tímabili að hún væri öll og þar með allar myndirnar mínar. Þrátt fyrir að vera á rassgatinu peningalega séð var mér á þeim tíma gersamlega sama um maskínuna, bara ef myndirnar myndu bjargast! Sem og þær gerðu. Sjæs! Get nú andað léttar og einnig farið að blogga á ný. Á morgun. 

Note to self og ykkar allra: Takið afrit af ljósmyndunum ykkar, þær verða ekki metnar til fjár!

Wednesday, May 8, 2013

Ofurfæða - ofurkona?


Það kom að því. Að ég prófaði hina svokölluð OFURfæðu sem Chiafræin eiga að vera í morgun. Hef látið þetta sem vind um eyru þjóta hingað til en ákvað að slá til og fjárfesti í poka í gær. 
Ég gúgglaði herlegheitin eins og lög gera ráð fyrir og stoppaði við síðuna hennar Ebbu Guðnýjar. Ekki það að einfaldara er að gera grautinn heldur en að sjóða kartöflur.

Eins og segir í þessari grein héreru...
Chiafræin sannkallaður ofurmatur og með því hollara sem þú getur sett ofan í þig. Þau eru besta plöntuuppspretta omega-3-fitusýra sem vitað er um. Rík af andoxunarefnum, próteinum, en þau eru 20% prótein og innihalda allar lífsnauðsynlegu amínósýrurnar, rík af auðmeltum trefjum (mjög góð fyrir hægðirnar og eru sögð geta dregið úr bólgum í meltingarvegi) en góð fita, prótein og góðar trefjar tempra einnig blóðsykurinn okkar. Þau einnig draga í sig nífalda þyngd sína sem þýðir að þau stuðla að heilbrigðum vökvabúskap í líkamanum og eru því góð fyrir fólk sem æfir mikið sem og í miklum hita. Þau innihalda einnig gott magn af kalki, sinki og járni.
Ég fór eftir leiðbeiningum Eddu að mestu, en hér er hennar uppskift:

  • 3 msk chiafræ
  • 200 ml vatn (eða möndlumjólk)
  • þroskaður mangó í bitum (og/eða aðrir ávextir/(ber) sem ykkur finnst góðir) ... ég notaði íslensk jarðarber út á möndlu-chiagrautinn!
  • kanilduft eða vanilluduft ef vill
1.    Setjið chiafræin í skál
2.    Hellið vatninu/möndlumjólkinni út á og hrærið vel í um eina mínútu
3.    Hrærið af og til á meðan þið bíðið í um 10 mínútur á meðan chiafræin eru að drekka í sig vökvann og fræin verða að graut í vökvanum
4.    Setjið út á þroskaðan mangó (eða aðra ávexti sem þið elskið!)
Þið getið sett hvaða ávexti sem þið elskið út á og einnig megið þið nota möndlumjólk í staðinn fyrir vatnið. Sumir elska að setja smá pálmasykur, vanilludropa (hægt að fá lífræna) eða tvo dropa af fljótandi steviu. Mér finnst dásamlega bragðgott að setja kakónibbur, gojiber sem og aðra þurrkaða ávexti á móti kakónibbunum, hampfræ sem og bananabita. Einnig má mauka þetta allt saman og best þá með möndlumjólk.
Það er frábært að setja smá chiafræ (þurr) eða chiagraut út á hafra- eða quinoagrautinn ykkar. Einnig set ég oftast chia í sjeikana mína.

* Ég setti grjónin í vatn í gærkvöldi og lét þau liggja í nótt. Þegar ég kíkti var þetta eins og vatnsblandaður sagógrjónagrautur! Ok. Lúkkaði vissulega ekki vel. Það sem ég setti út á minn graut var:

  • Hálft epli í lithium bitum
  • Döðlur í litlum bitum
  • Gojaber
  • Kanill

Ég setti enga mjólk. Þetta var bara mjög gott, svei mér þá. Það er nánast ekkert bragð af grjónunum, þau verða eins og hlaup, já bara eins og sagógrjónagrautur! Döðlurnar, eplin, berin og kanillinn gera þetta bara að mjög skemmtilegu tvisti. Sverða! 

Hráefnið - mínus kanill sem mætti ekki í myndatökuna!
Grjónin, þrjá matskeiðar.
Tveir desilítrar af köldu vatni. Látið bíða yfir nótt - eða í skemmri tíma.
Svona lúkkaði þetta í morgun. Réð mér alveg fyrir spenningi sko!
En, þegar ég var búin að setja epli, döðlur, gojaber og kanil út á - namm!

Prófið. Verið ofur!

Tuesday, May 7, 2013

Gömul og gild húsráð (beðið á kaffihúsi)

Átti kaffihúsastefnumót við eina mína uppáhalds í hádeginu í dag. Þar sem ég er óþolandi stundvís manneskja var ég að sjálfsögðu komin tíu mínúrtur fyrir áætlaðan tíma.

Fletti blaðinu yfir kaffibollanum. Þar rakst ég á þessi "gömlu og gildu" húsráð. Alltaf skemmtileg og gangleg, sérstaklega ef ég myndi muna að nota þetta einhverntíman þegar viðlíka kemur uppá!

Tyggjó í hári: Ef tyggjóklessa lendir í hári er bott að bera olíu í klessuna og nudda með fingrunum í dágóða stund. Með því móti ættir þú að sleppa við að klippa tyggjóið úr.

* Þetta hefði verið gott að vita daginn sem Þór og Bríet festu HúbbaBúbbaslummu í hausnum á sér sama daginn hér um árið.


Fullkomnar ostsneiðar: Gott er að þrífa ekki ostaskerann eftir hverja notkun því þá festist osturinn ekki við og þannig færð þú flottar sneiðar.

* Ókei. Ég á pínu erfitt með þetta þar sem öll áhöld fara átómatískt í uppþvottavélina eftir notkun. Sé að  Gísli gerir þetta, obbvíuslí vel upp alinn og með öll gömlu húsráðin á tæru! Þessi elska.


Vond lykt úr ísskáp: Látið 2-3 matskeiðar af matarsóda standa í opnu íláti í ísskápnum í sólarhring. Síðan er strokið úr ísskápnummeð tusku sem búið er að væta með ediki.

* Einmitt. Matarsódi er til svo margs brúks, eins og má sjá í þessari færslu hér. Ég er líka á leiðinni að gera aðra tilraun með sódann sem verður að sjálfsögðu greint frá hér fljótlega.



Rauðvínsblettir: Einhversstaðar er það skrifað að besta ráðið til þess að losna við litinn sem rauðvín skilur eftir sig sé að hella hvítvíni á blettinn. Einnig er ráð að hella kartöflumjöli yfir blettinn á meðann hann er blautur og þrífa með vatni á eftir. Að rífa blettinn með sódavatni stendur líka alltaf fyrir sínu.

* Ekkert ofangreint hef ég prófað. Hins vegar hef ég notað salt og það virkar - maður bókstaflega horfir á saltið draga í sig blettinn og volla. Allt eins og nýtt. Verð greinilega að fara að drekka meira til þess að prófa þetta allt saman, ekki get ég verið að ráðleggja eitthvað út í loftið bara! Skál!




Að skera lauk: Flestir kannast við táraflóðið sem fygir því að skera lauk. Skellu lauknum í frysti í 15 mínútur áður en hann er skorinn. Þannig ættir þú algerla að sleppa við táraflóðið sem fylgir skurðinum.

* Já. Ég á reyndar ekki við þetta vandamál að etja. Ekki það, ég er óttaleg grenjuskjóða en sé ekkert sorglegt við þennan atburð. En, endilega prófið þetta ef þið viljið leggja sundgleraugunum.


Táfýla: Er táfýlan að fara með þig? Ef svo er þá er gott að setja skóna sem lykta í frysti yfir nótt - þannig drepast bakteríurnar sem valda óþefnum.

* Táfýla? Það er bara af því þið eruð alltaf í sokkum! Feis!








Monday, May 6, 2013

Fer ekki að koma föstudagur?

Hef nánast farið í klippingu hvern föstudag síðustu vikur. Fyrir utan hvað mér finnst það skemmtilegt er um við að reyna að fikra okkur að rétta sumarlúkkinu. Verst það er svo margt skemmtilegt í boði, ó mæ!

















Svo ég tali nú ekki um ást mína á söngkonunni Pink. Þar er kona að mínu skapi, ekki alltaf með sama síða hárið, heldur þorir að taka áhættu og er svo hundrað sinnum meiri töffari fyrir vikið!






Sambýlismaður minn varð fyrir því ægilega óláni að líta yfir öxlina á mér þegar ég var að gúggla hárið á Pink. Sefur varla vært í nótt. Sagði mér að ég væri ekki að fara út í "eitthvað svona". Ég brosti til hans og sagði "nei, Almar minn" - en unglingurinn minn er sama sinnis. Ekki mamma pönk. "Ég meina það" sagðann og gekk í burtu. 

Uhumm, eimnitt. Hló ekki upphátt, kunni ekki við það. Bara inní mér!

Nóvorrís: Vitaskuld er ég ekki á leiðinni að lita á mér hárið ljóst. Ég meina það. 

Thursday, May 2, 2013

Fjársjóðs(ráns)ferð

Var að koma heim úr svaðalegri fjársjóðsferð í minn uppeldisbæ - Stöðvarfjörð. Kom nú svosem ekki til af góðu, þannig. Fyrir utan að heimsækja móður mína þá var þessi ferð gagngert til þess að hengja upp auglýsingu í sjoppunni.

Fyrir þá sem ekki eru vinir mínir á Facebook þá verð ég að greina frá því sem gerðist um daginn. Það var ekki skemmtilegt. Þeir sem þekkja mig vita að ég er sökker fyrir gömlu dóti - húsgögnum úr tekki, gömlum bollum, kjólum og fleiru. Það taldi ég að móðir mín vissi líka. Allavega ætti að vita, kommon!

Ég var búin að telja í mig kjark í marga daga til þess að biðja hana um að lána mér ákveðið gersemi í hennar einu. Var alveg með í maganum yfir þessu. Vantaði svo ofboðslega litla, netta og eldgamla tekksnyrtiborðið sem hafði verið inn í svefnherbergi hjá henni síðan ég man eftir mér. Svo fallegt. Ég sá það fyrir mér við gluggann minn hér í 403, til þess að ég gæti krúsað þar með elsku makkann minn og skrifað. Horft út á hafið til þess að fyllast inspírasjón, jú sí. Við borðið átti hún stól sem mér hefur líka alltaf þótt svo fallegur. Hann er ekki ósvipaður Sjöunni eftir Arne Jacobsen, en úr tekki og "loðinn".

Það var svo að móðir mín kom við í kaffi á dögunum og þá fann ég að það var komið að því. Ég ákvað að æla fyrirspurninni út úr mér. Spurði hvort ég mætti fá snyrtiborðið lánað, þar sem hún væri hætt að nota það. Það myndi koma sér vel fyrir hana þegar ég yrði metsöluhöfundur ossonna - gæti hent í hana nokkrum hundraðþúsundköllum. Ég sá samstundis að ekki var allt með felldu. Hún varð myntugræn á litinn og skökk í framan. "Ekki Jóna Arnfríður", sagði ég. "Ekki, ekki, EKKI segja mér að þú hafir hent borðinu?"

Jú, kærar þakkir. Það var einmitt það sem móðir mín hafði gert. Þegar hún hætti að nota borðið (sem ég reyndar skil ekki sökum yfirgengilegrar fegurðar) og kom því ekki upp á háaloft með góðu móti ein síns liðs, þá sá hún ekki neitt annað í stöðunni en að henda því á haugana. Og hana nú! Ég fann hvernig ég varð máttlaus í löppunum og langaði í borðið sem aldrei, nokkurntíman fyrr...

Brá því á það ráð að útbúa plagat og greina sveitungum mínum frá þessum hamförum. Jafnfram að biðja þá A) að stöðva móður mína ef sést til hennar bera eitthvað út úr húsi sínu sem hún annað hvort gæti gefið dóttur sinni eða þá selt á 80.000 kall á blandinu. B) að athuga hvort sambærilegt borð, eða þá lítið tekk-skrifborð leynist í bílskúrnum eða geymslunni og safnar bara ryki. Biðja þá alla hina sömu að hafa samband við mig á stundinni. Fyrst ég var að þessu á annað borð bað ég þá einnig um að tékka á hansahillum, fallegum retró lömpum og gömlum bollum. Bara svona fyrst ég var komin með tússpennan á loft.

Að sjoppuförinni lokinni fór ég í Fish Factory, en það geri ég í hvert einasta skipti sem ég fer á Stöddann. Ég kem heldur aldrei nokkurntíman tómhent þaðan út. Aldrei!


Skópör á 700 kall hvort. Rauðir dömuskór og súkkulaðibrúnir hermannaklossar. Af hverju í dauðanum ætti ég að standast það? Mér er bara spurn?

Glimmer-gullbuxur, saumaðar af Rósu sjálfri, 2000 kall. Já takk fyrir, það er nú að koma sumar segja þeir.  Það sem ég elska þetta kompaní!

Fór svo auðvitað í kaffi til móður minnar, þrátt fyrir þennan mikla glæp hennar. Hún, uppfull samviskubits, fór með mig í skoðunarhring um húsið. Við það uppskar ég: Tvo stóla, tvo lampa og myndina af litla drengnum með kisuna. Hún var að vísu alla tíð í minni einkaeigu og verð ég að teljast stáhheppin að hún hafi ekki einhverntíman fengið að fjúka!

Arne Jacopsen í dulargerfi. Bjútí. 

Já takk, komið með alla svona lampa til mín!

Litla krúttið, komið heim. Slapp naumlega undan tiltektarofsóknarbrjálaðri ömmu sinni. 

Jóna gerði við gallajakkann minn og allt. Mun nota þetta brot gegn henni mjög lengi!

Þarna var ég búin að hlaða í bílinn öllu því sem mig langaði í þennan daginn. Nema þá mánaðarbollunum, en hún harðneitar að láta mig nokkurntíman hafa þá!  Þarna má sjá einn lampasrerminn af standlampanum sem ég dröslaðist einnig með heim. Drengurinn á hvolfi og ekki í belti!

Þetta var nú aldeilis skemmtilegt. Nú ætla ég að drífa mig að ganga frá þessu öllu áður en elskulegur sambýlismaður minn kemur heim úr vinnu. Hann hefur ekki skilning á svona.

Hann er smekkmaður á ýmsum sviðum, eins og til dæmis við val á kvenfólki - en ber aftur á móti ekki nokkuð einasta skynbragð á hönnun eða góss á við það sem ég bar heim án hans vitundar í dag. Hann á líklega eftir að æla á litla strákinn með kisuna og hugsanlega hafa orð á því að mig vantaði ekki tvenn skópör í viðbót.

Vá hvað það er örugglega mikið mál að vera karlmaður!

Wednesday, May 1, 2013

Syndsamlega góð kaka í 1/3 af þríburaafmæli


Miðvikudagur? Virkilega? Sunnudagur fyrir mér og það merkir aðeins eitt - myndir á myndir ofan. Vörðum deginum á Egilsstöðum með einu af þremur afmælisbörnum fjölskyldunnar- en þríburarnir Jóa, Ragga og Guðni - mág"fólk"mitt eiga afmæli í dag. Hibb, hibb, húrra!

Jóa klikkaði ekki á kræsingunum, maður lifandi...

Þessi elska var með Pippkremi

Sjúklega gott! Þarna er Puffed wheat with honey (held ég sé að fara rétt með) skipt inná fyrir Rice krispies. Auk þess þetta klassíska, 100 g smjör, 100 g suðusúkkulaði og 5 msk síróp. Afar skemmtileg tilbreyting!

Ó hvað mér finnst ég hafa myndað snúðana fallega í Iittala!

Nýja uppáhaldskakan mín!
Að öllu öðru ólöstuðu - og trúið mér, ég smakkaði allt (oft) þá er þetta besta kaka sem ég hef fengið í langan tíma. Uppskriftin er fengin héðan og eins og segir í titlinum, þá er þetta já syndsamlega góð kaka! Mæli með því að þið bakið hana jafnvel strax í kvöld, ekki þá seinna en á morgun. 

Edda var sætasta pæjan á svæðinu og líka í flottasta átfittinu. Mig langar í þetta pils!

Mjólk!



Tomma töff er sama hvaðan gott kemur!



Jóa var ekki af baki dottin og strax eftir kaffi fór hún að græja kvöldmatinn. Ekki seinna vænna!

Eftir að hafa troðið í sig pizzu ofan í allt annað fór að vella út úr eyrunum á mannskapnum. Ég léttist ekki í dag. En, kannski á morgun!

Munið að sletta í kökuna!