Tuesday, April 30, 2013

Er Bolli heima?

Ég var atvinnusímahrekkjari þegar ég var lítil. Það sem við vinkonunar vorum orðnar sjóaðar, maður lifandi! Ekkert var hægt að rekja, þá voru sko jólin! 

Vá hvað ég skammast mín þegar ég hugsa um það. Veit reyndar ekki alveg af hverju mér datt í hug að játa þessar syndir hér, líklega af því ég er að fara að tala um gamla bolla og datt þá í hug brandarinn sem við notuðum óspart; "Er Bolli heima? En undirskál". Úff, úff, úff...

En. Þetta var nú ekki umtalsefni dagsins, heldur risavaxin ást mín á gömlum bollum. Það er til dæmis eitt sem sambýlismaður minn skilur ekki og ætla ekki að fá hann til að skilja - nóg er á hann lagt samt!


Dálæti minn á gömlum bollum hófst líklega með þessu stelli hér sem ég hafði horft hugfangin á hjá ömmu Jóhönnu alla mína bernsku. Fannst það fallegra en allt saman. Þegar amma eftirlét mér það fannst mér ég vera með gull í höndunum, en hún hafði keypt það þegar hún stundaði nám við Menntaskólann á Akureyri. 

Bollarnir eru sex talsins, ásamt diskum, kakókönnu, mjólkurkönnu og sykurkari. Bollarnir sjálfir eru svo þunnir að það má nánst lesa í gegnum þá. Það sem mér finnst skemmtilegast við þá er að rósirnar eru inní bollanum, ekki utaná eins og á öllum bollum í dag...

Fór eftir þetta að safna stökum, gömlum bollum og á nokkra í dag...

Finnst þessi æði! Keypti hann hjá Þorsteini Bergmann í Reykjavík. Hann er svo mikið ævintýr...

Ó, þessi er líka voða mikið uppáhalds!

Æji, flutningar! Einn ömmudiskur og annar guðdómlega fallegur gullbolli! Ó mig auma!

Bjútifúl!
Þetta er svo sá nýjasti. Jóhanna Seljan færði mér hann í afmælisgjöf í ár, en hann er úr einni af minni uppáhaldsbúð, Húsi fiðrildana. 

Það er svo margt fallegt til í Húsi fiðrildanna, maður lifandi! Til dæmis þetta:

Flottir, langar ferlega í einn!

Krútt!

Pínu svipað mínu stelli...

Ó jesús, þarf ekki að hafa nokkur orð um alla þessa fegurð. Verð bara pínu máttlaus í löppunum mínum!

Mun skála í einhverjum ofangreindum í fyrramálið, svona í tilefni 1. maí!

Sunday, April 28, 2013

Kosningasvekk ásamt myndasögu helgar

Kosningadagurinn hér eystra rann upp svo bjartur, hlýr og fagur að mér datt ekki annað í hug en að skella skollaeyrunum við óveðursspá sunnudagins. Gæti bara engan vegin staðist.


Byrjaði daginn á að skila þessari inn til Samfylkingarinnar í nafni frumburðar, sem er harður stuðningsmaður þeirrar fylkingar...


Þá var komið að máli málanna - Xinu. Verð að viðurkenna að ég varð fyrir vonbrigðum með að ekki væri flaggað á kjörstað. Spurði meira að segja eftir því við þá sem voru á vakt sem töldu ekki að það væri vaninn. Er ég orðin rugluð? Hefur ekki alltaf verið flaggað?


Ekkert var annað í stöðunni en að pulsa sig upp eftir herlegheitin. Mjög svo tilheyrandi á svo fögrum og stórum degi þar sem margt var framundan...


...eins og að bruna í Egilsstaði þar sem minn elskulegi varði deginum á fótboltavellinum á firmamóti Spyrnis í innanhússfótbolta. Ég þá að sjálfsögðu í stúkunni eins og góðri kærustu sæmir!

Fer svo hratt yfir þessi elska að hann festist ekki á filmu!

Mínir menn unnu mótið, nema hvað? Uppskáru að launum þrjá kassa af Bolabjór!


Er svo heilluð af þessum bíl sem á heima á Egilsstöðum. Kunni ekki við að stoppa fyrir utan húsið og taka mynd, þannig ég gerði það á ferð sem skýrir einstaklega léleg gæði. En flottur er hann fyrir það!

Á heimleið
Við Elísabet heimsóttum Ástu á kosningaskrifstofuna

Fór að sjálfsögðu á kosningarölt og kíkti á Ástu mína sem ég var svo sannfæð um að kæmist á þing sem þriðji þingmaður Sjálfstæðisflokksins í norðaustur. Ohh, munaði svo litlu. 



Svona var dagurinn fúll á Reyðarfirði í dag, í takt við úrslit næturinnar.

Ásta er ein duglegasta, kraftmesta, heilsteyptasta og besta manneskja sem ég hef kynnst gegnum tíðina og hefði verið frábær viðbót við annars ágætan hóp sem komst til valda í nótt.  Hún mun þó án efa láta til sín taka í varaþingmannssætinu og fljúga svo inn að fjórum árum liðnum! Ég er endalaust stolt af minni konu.

Saturday, April 27, 2013

Af ýmsum óþolum

Ég er blessunarlega ekki með fæðuóþol. Ég er hinsvegar með alvarlegt óþol fyrir loftljósum, gardínum og sokkum. Loftljós þykja mér bæði ljót og leiðinleg, gardínur get ég ekki í mínum húsum nema þá eitthvað afskaplega minimalískt og þannig úr garði gerðar að þær geti "horfið sporlaust" annað hvort upp eða til hliðar. Sokkar hafa mér alltaf þótt verkfæri djöfulsins og er mér ómögulegt að skilja fólk sem endist í þessu allan daginn!

Auðvitað eru til fallega hönnuð loftljós, ég viðurkenni það. Það er birtan af þeim sem fer óskaplega í taugarnar á mér, langar ekki að líða eins og á skurðstofu á mínu eigin heimili. Í stað almennrar loftljósanotkunar er ég með lampa og kósýljós í hverju horni. Elskulegur sambýlismaður minn var töluvert lengi að átta sig og hvað þá skilja þessa takmörkun mína en virðir þetta þó við mig. Það er leikur að læra. Það er þó eitthvað við "rússann" sem hefur alltaf heillað mig.



Það sem mér finnast ljósaperur fallegar í einfaldleika sínum. Fyrri myndina fann ég á Pinterest en neðri myndin er verk sem unnið var í Fish Factory á Stöðvarfirði. Einhverntíman ætla ég að hanna mér mitt eigið rússneska listaverk. Jei.

Gardínur. Ég bara get þær mjög illa. Einstaklega óspennandi húsbúnaður. Veit ekki hvað það er. Finnst eitthvað svo hreint og fallegt við glugga sem mig langar ekki að menga með einhverjum lufsum. Veit alveg í skynsemi minni að það er ekki kannski ekki "æskilegt" að vera í gardínulausu húsi, þó svo ég geri það yfirleitt. Mér bara gæti ekki verið meira sama þó svo fólk horfi inn til mín ef það hefur gaman af því. Þess utan elska ég stóra glugga og langar mest að hafa þá út um allt frá lofti niður í gólf.






Get ómögulega lagt það á ykkur svona á kjördag að fara út í díteila á ást minni á funkis-byggingarstílum. Það væri of mikið á ykkur lagt svona með því að tryggja framtíð þjóðarinnar. Seinna. En, það sem mér finnst hann fallegur. Gluggarnir maður lifandi. Stórir gluggar gefa svo mikið frelsi. Sérstaklega ef útsýnið er fallegt. Mitt væri staðsett við sjó. Er farin að hallast að því að ég hafi verið gullfiskur í fyrra lífi!




Sokkar. Þeir finnst mér algerlega af hinu illa. Það er svo einfalt. Verkfæri djöfulsins jafnvel. Oj barasta. Á ekki einu sinni venjulega sokka, bara íþrótta- og ullarsokka. Það sem ég skil lítil börn vel að toga af sér sokka um leið og færi gefst og reyna einnig að toga sig úr sokkabuxum. Kvelst af samúð með þeim þegar foreldrarnir troða þeim jafnharðan í. Æjæjæj.

Hef alltaf verið svona. Anda líklega með tánum. Fæ innilokunarkennd í sokkum- já og jarðgöngum undir sjó. Hrollur.


Engin sokkamynd takk!

Gleðilegan kjördag, njótið þess að nýta rétt ykkar í dag! Áfram Ísland - stórasta land í heimi!




Friday, April 26, 2013

VorHUGUR

Ég hef aldrei velt orðinu "vorhugur" sérstaklega fyrir mér þannig, bara notað það án umhugsunar. Það er hinsvegar að öðlast nýja merkingu fyrir mér þessa dagana.

Þetta gerist reyndar á hverju vori. Með hækkandi sól og lengri dögum umturnast hugurinn á mér. Mér finnst ég þurfa að græja allt og gera. Taka til í fataskápnum, hengja upp myndir, breyta, bæta, mála ef ég bý í eigin íbúð og láta almennt öllum illum látum!

Vorhugakast mitt er sérlega alvarlegt í ár. Fyrir utan það ofangreinda er ég með aragrúa af  hugmyndum í hausnum á mér. Iðandi eins og í mauraþúfu. Er að kafna úr einhverri sköpunargleði sem ég átta mig þó ekki alveg á hvað ég á að gera við. Snýr heldur ekki að einu, heldur hreinlega öllu.

Mig langar að skrifa bækur, mála myndir, hanna allskonar hluti svosem myndaramma, púðaver, serviettur, kort -, stofa ákveðið fyrirtæki svo eitthvað sé nefnt! Vá hvað þetta er óþægilegt, verð að fara að tappa af með því að framkvæma eitthvað af þessu áður en hausinn á mér springur í loft upp!




Líður sirka svona. Góða helgi krakkar!



Thursday, April 25, 2013

Tuskum okkur upp!

Ég bý ekki í námunda við Rúmfatalagerinn og einhvernvegin veit þá aldrei hvert ég á að fara til þess að finna tuskur. Enda er ég búin að finna mínar bestu, alveg sjálf!

Þetta er svona sirka ástandið á flestum tuskum í 403 þessa dagana.

Þá er ekkert annað en að taka til sinna ráða. Það sem mér finnst langbesta lausnin við þessum vanda er að fara í baðskápinn og finna eitthvað handklæði sem er orðið vel þvegið og má muna sinn fífil fegurri.

Þetta hérna var tilbúið til þess að fórna sér að þessu sinni!

Svo bara að láta skærin vaða...

Klippið í þær stærðið sem ykkur líkar sem best. 

Awww. Með einfaldri aðgerð er ég tíu stráheilum tuskum ríkari. Ég og Ajax vinur minn ætlum að taka til hendinni á föstudaginn - svona til þess að fagna sumri!
 Gleðilegt sumar!

Wednesday, April 24, 2013

Himnasending

Í gærkvöldi bankaði hjá mér kona og rétti mér umslag þegar ég opnaði. Í umslaginu voru sex "dúllur" eða glasamottur - guðdómlega fallegar, fínheklaðar og allar hver í sínum lit.

Ó hvað ég er glöð, þær eru svoooo fallegar! Mitt næsta verk er að læra að hekla, það get ég svarið.

Takk elsku Inga!

Er ástfangin!

Það sem verður enn skemmtilegra að drekka rauðvínið með tilkomu þessara krútta...


Fegurð!

Tuesday, April 23, 2013

Helgarmyndasaga og fimmtán mínútur af frægð

Á morgun hef ég verið lasin í hálfan mánuð. Ég er þeirri ónáttúru gædd að fái ég kvefvott fer hann samstundis inn undir öll bein í andlitinu á mér, sest þar að og ég verð alveg bakk! Var orðin nokkuð brött á föstudag og lét það eftir mér að fara með Þór í Oddskarðiði á laugardagsmorgun. Tekið skal fram að þar var innanhússhiti og lognpollur. Veikindaguðinn ákvað þó að refsa mér all harkalega og sló mig samstundis niður. 

Þrátt fyrir að vera ólögleg umheiminum vegna óhóflegrar verkjalyfjainntöku var ég þó með vélina á lofti um helgina. Hér er örlítil myndasaga - spes fyrir ykkur...

Nokkuð hress hélt ég í Oddskarðið með þessa tvo á laugardagsmorgun, í rjómablíðu. Fyrir þá sem ekki eru vinir mínir á Facebook verð ég að láta söguna af þeim félögum fylgja með myndinni...

Fór með vinina Þór og Sebastían Andra á skíði eftir hádegi. Á leið okkar í skarðið keyrðum við eins og von var til gegnum Eskifjörð. Á hægri hönd þegar komið er inn í bæinn er hálfkláruð bygging sem verða á dvalarheimili. Þegar við renndum framhjá áttu þessar samræður sér stað:

S: Þegar við fórum á skíðadaginn sagði Lóló (kennari) okkur þegar við keyrðum hér framhjá að hingað færum við þegar við yrðum orðin grá og guggin. 

Þ: Er það?

S: Já. Mig langar samt frekar að fara á elliheimi á Reyðarfirði, ég kann betur við mig þar. 

Þ: Já, ég líka.

S: Jah, ekki nema að það verði eitthvað skemmtilegra að gera hér, eins og tennis, til dæmis. 

Þ: Já! Eða borðtennis eða fótboltaspil. Svo erum við nær Oddskarði hér, auðveldara að panta rútu á skíði. 

S: Já. Við verðum bara að sjá hvoru megin verður meira skemmtilegt í boði.

Bráðnauðsynlegar pælingar á áttunda ári. Fer að kynna fyrir þeim viðbótarlífeyri fljótlega.

Gísli átti afmæli á laugardaginn og héldum við smá kökuboð í Miðdalnum hjá ömmu Jónu Mekkin á sunnudaginn. Her má sjá brot af flottum afmælisgestum...
Skíðaáhuginn heltók mannskapinn og Gísli skellti sér í skarðið með systkinin fyrir veislu...



Ó jeminn - ég ræð rosalega illa við mig í svona partýum!



Engin mynd reyndist nothæf af afmælisbarninu eftir daginn - en af Tomm töff, hann myndast alltaf vel. Á neðri myndinni er hann að láta Þór hafa það óþvegið!


Bara verð að láta þessa fljóta með. Þarna er Hafþór Atli að sýna afar metnaðarfullt töfrabragð. Ég mæli með að forsvarsmenn allra sumarhátíða hafi samband við kappann!


Upplifði svo sirka fimmtán mínútur af frægð á dögunum. Atvikaðist þannig að einu sinni sem oftar átti ég leið í Molann (mollið okkar Reyðfirðinga). Leit við á Exito-hár hjá Helenu, sem var að klippa konu og segir: Krissa, þú ert fyrirmynd hjá þessari, hún sá kilippingu á þér í blogginu þínu...

...á leið minn út af stofunni gekk ég í flasið á konu sem sagði: Ertu búin að fá einhverja vinnu? Ég neitaði því. Þú verður samt að halda áfram að skrifa, sagði hún - það er svo gaman að lesa bloggið þitt!

Að erindi mínu í Molanum loknu þurfti ég að skreppa í Húsasmiðjuna. Ég var varla komin þar inn þegar kona stoppar mig og segir; Mikið roooosalega ertu góður penni stelpa - og var þá sérstaklega að vitna í stjuptengslapistilinn minn sem ég kastaði fram um daginn. 

Auðvitað þykir mér vænt um að heyra það að ég sé ekki bara að skrifa mér til skemmtunar, heldur að fólk hafi gaman af því að lesa það sem ég set frá mér. Mér þætti líka alveg frábært að þið mynduð vera enn duglegri að kommenta ef ég er að skrifa um eitthvað sem ykkur þykir skemmtilegt eða snertir ykkur á einhvern hátt - mér finnst nefnilega svo gaman að lesa það sem þið skrifið.

Þeinks


Thursday, April 18, 2013

Tvöfaldur dreki

Þetta er eins og að liggja við hliðina á dreka! - sagði Gísli á dögunum þegar sauð í mér eins og hrísgrjónapotti og brakaði í hálsi mínum við hvern andardrátt. Fór á fund við lækni í dag...


Jibbí kóla! Fór þaðan 10.000 krónum fátækari. Með lyf upp á arminn sem eiga að drepa dreka. Enn er ég þó tvöfaldur dreki og geri aðrir betur!



Wednesday, April 17, 2013

Og þá ældi Gísli upp í sig. Af bókafíkn og fleiru.

Ég elska bækur og texta. Ein af mínum fyrstu æskuminningum er þegar ég lá á maganum í bókasafninu á Stöðvarfirði og skoðaði bækur. Fimm ára í gallasmekkbuxum, berfætt og með tígó. Með staflana í kringum mig. Mátti skoða allt sem ég vildi, þá voru sko jólin! Hlustaði á kórsöng um leið, en kirkjukórinn æfði þar um tíma og foreldrar mínir voru bæði meðlimir í honum. Þess vegna er ég kannski eins og ég er. Veit fátt yndislegra en sálma og bækur - er 400 ára gömul sál.

Elska lyktina á bókasöfnum, sniffa eins og fíkill af hverri bókinni af fætur annarri. Ummm. Man alltaf sérstaklega eftir lyktinni af Prúðuleikarabókinni minni, en ég þefaði meira af henni heldur en ég las. Fannst hvort sem er aldrei gaman af svona vitleysistexta eða myndasögum. Tók sjálfa mig allt of hátíðlega, allt of snemma.

Ég hef alltaf lesið mikið fyrir krakkana mína, þykir það afskaplega stór partur af góðu uppeldi. Bæði eykur það orðaforða og er mikilvægt upp á hlustun, athygli og ímyndunarafl. Síðast en ekki síst er ekkert dásamlegra en að gera upp daginn með því að leggjast öll upp í eitt ból, spjalla smá og lesa kafla í skemmtilegri bók.

Finnst allt heillandi við bækur og texta. Ef ég myndi vinna í búð, þá væri það bókabúð. Ef ég ætti fyrirtæki þá væri það bókakaffi. Mér finnst bækur fegra umhverfið og hef afar mikla þörf fyrir að hafa bækur í kringum mig á heimilinu mínu. Finnst bóklaust heimili hálf sálarlaust. Sambýlismaður minn hefur takmarkaðan skilning á þessu en lætur þetta yfir sig ganga. Blöskraði þó þegar ég kom svífandi heim um daginn og tilkynnti honum hversu heppin ég væri - góð vinkona mín ætlaði að gefa mér sex bókakassa! Spurði mig bara góðlátlega hvar ég ætlaði svosem að koma herlegheitunum fyrir. Það varðaði mig ekkert um, það er alltaf pláss fyrir slíka fegurð, hvar sem er.

Svo ég komi mér nú að efninu, þá dró ég hinn sama með mér á bókamarkað á Egilsstöðum um helgina. Met mikils að Stóri bókamarkaðurinn druslist um landið og gefi nördum eins og mér færi á að eyða smá pening einu sinni á ári og fá almenna útrás. Vel gert. Þess ber að geta að það var þó alls ekki eina erindið á Héraði þann dag. Ég að fara að syngja og hann að fara á fótboltaleik. Allir jafnir. 1-1.

Á leiðinni reyndi ég að selja þetta mjög kæruleysislega:

Ég: Þú þarft ekkert að koma með mér ef þú nennir því ekki ástin mín.
Gísli: Jú, jú - auðvitað kem ég með þér.
Ég: Já, ég verð bara fimm mínútur sko, bara rétt að kíkja. 
Gísli: Uhumm, einmitt.

Sá samstundis eftir því að hafa dregið betri helminginn með mér inn. Já og nánast bara í Egilsstaði, því ég hefði getað hugsað mér að dvelja þarna til kvölds. Það bara gerist eitthvað þegar ég fer á stefnumót við svona margar bækur, ég fyllist einhverskonar heilögum anda. Dett hálfpartinn út og verð varla viðræðuhæf. Reyndi þó að láta á voðalega litlu bera, enda í fyrsta skipti sem hann er að koma með mér á slíka samkomu. Sýndi mikla stillingu, skoðaði lítillega og þóttist áhugalítil að mestu. Keypti þrjár bækur krakkana og tvær fyrir mig. Tók tólf mínútur allt í allt, takk fyrir og bless.

Awww, lov, lov, love it!
Kiddi klaufi er klassi.
Nei, ókei, núna kem ég mér að efninu. Lofa því. Tók semsagt tvær bækur fyrir mig og fyrir einhverja algera rælni urðu akkúrat þær fyrir valinu. Báðar eftir íslenskan rithöfund sem heitir Auður Ava Ólafsdóttir. Afleggjarinn og Rigning í nóvember. Titlarnir og kápurnar láta afsaplega lítið yfir sér og ég hef ekki hugmynd af hverju ég greip þær, hef aldrei lesið neitt eftir þessa konu. En, ó mæ. Þær eru æði. Æði.

Auður Ava Ólafsdóttir

Ætla ekki að upplýsa neitt um innihald, heldur láta ykkur um að lesa - en þessi samtalsbútur átti sér stað í paraholunni í gærkvöldi.

Við vorum bæði að lesa, ég að klára Afleggjarann og Gísli að byrja á sinni annarri Arnaldsbók á jafnmörgum dögum. Ég flissaði annað slagið, milli hóstakasta. Gísli lítur á mig og segir:

Gísli: Er þetta svona skemmtileg bók?
Ég: Já, mjög. En aðallega er þetta svo fallega skrifaður texti. 
Gísli: Sorrý, en ég ældi aðeins upp í mig!
Ég: Ha, ha, ha, ha! Æji þarna. Eða þú veist. Hún er fyndin og svo vel skrifuð. Mig langar ekki að klára bækurnar, tími því ekki!

Einmitt. Það eru bara ekki allir eins voðalegir nördar og ég. Það er ljóst. Held bara að Gísli minn lesi hvorki né horfi á neitt nema þar séu að minnsta kosti þrír drepnir.

Sjálf er á leiðinni í Héraðið á nýjan leik. Á þann stóra, ALein. Ætla svo sannarlega að tryggja mér hina titlana eftir þennan frábæra höfund. Myndi kynna mér málið líka ef ég væri þið.